Hamar og Haukar sigruðu í fyrstu leikjum Eden mótsins í körfubolta karla sem hófst í Hveragerði í kvöld.
Í fyrsta leik mótsins áttust við Hamar og FSu og þar vann Hamarsliðið nokkuð auðveldan sigur, 81-55. Darri Hilmarsson og Svavar Páll Pálsson voru stigahæstir hjá Hamri með 15 stig en Sæmundur Valdimarsson skoraði 17 stig fyrir FSu.
Seinni leikur dagsins var leikur Þórs og Hauka en þar sigruðu Haukar 73-74. Þórsarar áttu síðustu sóknina í leiknum og hefðu getað stolið sigrinum en erfitt skot Baldurs Þórs Ragnarssonar fór forgörðum. Stigahæstir Þórsara voru Emil Karel Einarsson og Þorsteinn Ragnarsson með 25 stig hvor. Örn Sigurðsson og Haukur Óskarsson skoruðu mest fyrir Hauka, báðir 15 stig.
Næstu leikir fara fram á föstudaginn en þá mætast Hamar og Þór kl. 18:30 og FSu og Haukar kl. 20:15. Mótinu lýkur á sunnudagskvöld.