Hamar í Hveragerði fékk Hörð frá Ísafirði í heimsókn á Grýluvöll í dag í A-riðli 4. deildar karla í knattspyrnu.
Magnús Ingi Einarsson kom Herði yfir á 11. mínútu en Sam Malson jafnaði metin fyrir Hamar á 37. mínútu. Staðan var 1-1 í leikhléi.
Hamarsmenn fengu vítaspyrnu þegar tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik, Malson fór á punktinn og skoraði af öryggi.
Staðan var 2-1 allt þar til þrjár mínútur voru eftir af leiknum að Sigþór Snorrason jafnaði metin fyrir Ísfirðinga.
Hamar komst í toppsæti riðilsins með jafnteflinu og hefur þar 13 stig, en Kórdrengir og Kría sem eru í næstu sætum fyrir neðan eiga leiki til góða á Hamar.