Hamar og KFR unnu leiki sína í 1. umferð Valitors-bikars karla í knattspyrnu í dag en Ægismenn töpuðu og eru úr leik.
KFR kafsigldi KB á upphafsmínútum leiksins sem fram fór á grasvellinum á Hellu. Eftir tuttugu mínútur var staðan 3-0 en Rangæingar spiluðu agaðan varnarleik og sprengdu svo upp vörn KB með skyndisóknum.
Það sama var uppi á teningnum í seinni hálfleik. KB hélt boltanum betur og KFR sótti hratt. Rangæingar fengu nokkur dauðafæri til viðbótar en það voru KB menn sem skoruðu eina markið í seinni hálfleik.
Reynir Björgvinsson, Andrezej Jakimczvk og Diego Marínez skoruðu mörk KFR.
Hamar og Carl léku á gervigrasinu á Selfossi og þar höfðu Hvergerðingar betur, 2-0. Ragnar Sigurjónsson og Axel Ingi Magnússon skoruðu mörk Hamars sem höfðu talsverða yfirburði í leiknum og hefðu að ósekju getað bætt við fleiri mörkum.
Ægir og KV léku í Þorlákshöfn þar sem KV sigraði 2-4. Mahop Luc Romain skoraði bæði mörk Ægis. Ægismenn voru mun sterkari í fyrri hálfleik en fóru illa með dauðafæri. Staðan var 2-2 í leikhléinu en í seinni hálfleik sótti KV í sig veðrið þegar leið á og um leið og þeir komust yfir fjaraði leikur Ægismanna út.