Hamar og KFR töpuðu sínum leikjum í 2. deild karla í knattspyrnu í dag. Hamar fékk Völsung í heimsókn en KFR sótti Gróttu heim.
KFR byrjaði reyndar vel á móti Gróttu og strax á 6. mínútu kom Lárus Viðar Stefánsson þeim röndóttu yfir. Grótta jafnaði leikinn á 21. mínútu og staðan var jöfn í hálfleik, 1-1. Grótta hafði yfirhöndina í seinni hálfleik sem var lengi vel markalaus en Seltirningar gerðu út um leikinn með tveimur mörkum á fimm mínútna kafla undir lok leiks.
Hamarsmenn voru á hælunum í fyrri hálfleik gegn Völsungi og gestirnir leiddu 0-2 í hálfleik. Sene Abdalha kom inná í hálfleik fyrir Ragnar Valberg Sigurjónsson og Senegalinn þakkaði fyrir sig eftir tveggja mínútna leik og minnkaði þá muninn í 1-2 með góðu marki. Gestirnir voru ekki hættir og skoruðu með skalla eftir hornspyrnu sex mínútum síðar. Hamarsmenn áttu ágætar sóknir í seinni hálfleik og náðu að klóra í bakkann á 87. mínútu, og aftur var Sene að verki, en nær komust Hamarsmenn ekki.
Bæði lið luku leik með tíu leikmenn inni á vellinum en á 75. mínútu fékk Hrafnkell Freyr Ágústsson, leikmaður Hamars, sitt annað gula spjald og fimm mínútum síðar fækkaði dómarinn um einn í liði Völsungs.
Hamar sækir Aftureldingu heim á fimmtudagskvöld en daginn eftir leikur KFR sinn fyrsta heimaleik í deildinni þegar liðið tekur á móti Fjarðabyggð sem er án stiga eins og KFR.