Hamar og Selfoss unnu leiki sína í 1. deild karla í körfubolta í kvöld. Hamar fékk KFG í heimsókn og Selfoss tók á móti Snæfelli.
Hamar átti ekki miklum vandræðum með að afgreiða KFG. Hvergerðingar skoruðu fyrstu átta stig leiksins og leiddu að loknum 1. leikhluta, 29-23. Hamar skoraði fyrstu 11 stigin í 2. leikhluta en KFG náði að klóra í bakkann og staðan var 49-39 í leikhléi. Í seinni hálfleik hafði Hamar mikla yfirburði og þeir gerðu nánast út um leikinn í 3. leikhluta. Staðan var orðin 87-55 í upphafi 4. leikhluta og á endanum skildu 30 stig liðin að, 101-71.
Jaeden King var besti maður vallarins, hann skoraði 33 stig fyrir Hamar og tók 9 fráköst að auki.
Það var öllu meiri spenna á Selfossi þar sem Snæfell var í heimsókn. Leikurinn var jafn allan tímann en Selfoss náði ágætum spretti í 2. leikhluta og leiddi 50-45 í hálfleik. Selfoss var skrefinu á undan allan seinni hálfleikinn en Snæfell var aldrei langt undan og á lokamínútunum önduðu gestirnir hressilega niður um hálsmálið á Selfyssingum. Snæfell jafnaði 84-84 á lokamínútunni en Selfoss átti síðasta orðið og sigraði 86-84.
Follie Bogan var stigahæstur Selfyssinga með 37 stig og 10 fráköst og Vojtéch Novak var sömuleiðis sprækur með 18 stig og 8 fráköst.
Hamar og Selfoss eru bæði í efri hluta deildarinnar með 2/1 eins og fleiri lið.
Tölfræði Hamars: Jaeden King 33/9 fráköst, Jose Medina 19/5 stoðsendingar, Björn Ásgeir Ásgeirsson 11, Ragnar Agust Nathanaelsson 7/13 fráköst, Fotios Lampropoulos 6/9 fráköst, Egill Þór Friðriksson 6, Kristófer Kató Kristófersson 5, Birkir Máni Daðason 5, Arnar Dagur Daðason 5, Daníel Sigmar Kristjánsson 4/5 fráköst, Lúkas Aron Stefánsson 1 frákast/1 stoðsending.
Tölfræði Selfoss: Follie Bogan 37/10 fráköst, Vojtéch Novák 18/8 fráköst/5 stoðsendingar, Ísak Júlíus Perdue 9/6 stoðsendingar, Arnór Bjarki Eyþórsson 7, Tristan Máni Morthens 6/5 fráköst, Svavar Ingi Stefánsson 6, Birkir Máni Sigurðarson 3, Ari Hrannar Bjarmason 1 frákast/1 stoðsending, Unnar Örn Magnússon 1 frákast, Óðinn Freyr Árnason 1 frákast.