Hamar og Selfoss sigruðu í lokaumferðinni

Jose Medina var sterkur í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Deildarkeppninni í 1. deild karla í körfubolta lauk í kvöld. Selfoss og Hamar unnu heimasigra en Hrunamenn töpuðu úti.

Hamar fékk Fjölni í heimsókn og úr varð jafn leikur. Staðan í hálfleik var 42-40. Fjölnir skoraði fyrstu sjö stigin í seinni hálfleik en þá tók Hamar við sér aftur og leiddi til leiksloka, þó að gestirnir væru aldrei langt undan. Lokatölur urðu 86-77. Jose Medina var öflugur í kvöld, skoraði 34 stig fyrir Hamar og sendi 7 stoðsendingar.

Selfyssingar fóru nokkuð létt í gegnum leikinn gegn Ármanni í Gjánni á Selfossi. Staðan í hálfleik var 56-41. Ármenningar minnkuðu muninn í 3. leikhluta en Selfoss kláraði leikinn af krafti og sigraði 100-82. Arnaldur Grímsson skoraði 27 stig fyrir Selfoss og tók 14 fráköst, frábær leikur hjá honum en margir Selfyssingar skiluðu góðum tölum í kvöld.

Hrunamenn heimsóttu Þór á Akureyri og þar voru heimamenn lengst af sterkari. Þórsarar skoruðu 37 stig í 1. leikhluta og fóru langt með leikinn þar, því Hrunamenn skoruðu aðeins 14 stig. Staðan í hálfleik var 58-38. Hrunamenn klóruðu í bakkann í 4. leikhluta en það var of seint og lokatölur urðu 101-79. Ahmad Gilbert skoraði 34 stig fyrir Hrunamenn.

Hamar mætir Fjölni
Lokastaðan í deildinni er þannig að Hamar er í 2. sæti með 44 stig, jafnmörg stig og topplið Álftaness. Hamar mætir Fjölni í úrslitakeppninni og í hinni viðureigninni mætast Sindri og Skallagrímur. Selfoss varð í 6. sæti með 24 stig og Hrunamenn í 9. sæti með 18 stig.

Hamar-Fjölnir 86-77 (19-17, 23-23, 23-20, 21-17)
Tölfræði Hamars: Jose Medina 34/4 fráköst/7 stoðsendingar, Elías Bjarki Pálsson 13/5 fráköst, Haukur Davíðsson 11, Daði Berg Grétarsson 9/6 fráköst, Alfonso Birgir Gomez 8/8 fráköst, Daníel Sigmar Kristjánsson 6/7 fráköst, Ragnar Nathanaelsson 5/13 fráköst/5 varin skot.

Selfoss-Ármann 100-82 (28-18, 28-23, 20-25, 24-16)
Tölfræði Selfoss: Arnaldur Grímsson 27/14 fráköst, Ísak Júlíus Perdue 18/8 fráköst/9 stoðsendingar, Birkir Hrafn Eyþórsson 17/8 fráköst, Kennedy Clement 13/9 fráköst/7 stoðsendingar, Ísar Freyr Jónasson 9/5 fráköst/5 stoðsendingar, Styrmir Jónasson 6, Ari Hrannar Bjarmason 3, Gísli Steinn Hjaltason 3, Sigurður Logi Sigursveinsson 2, Sigmar Jóhann Bjarnason 2.

Þór Ak.-Hrunamenn 101-79 (37-14, 21-24, 24-15, 19-26)
Tölfræði Hrunamanna: Ahmad Gilbert 34/8 fráköst, Óðinn Freyr Árnason 10, Þorkell Jónsson 10, Samuel Burt 10/10 fráköst, Hringur Karlsson 5, Friðrik Heiðar Vignisson 4, Dagur Úlfarsson 4, Patrik Gústafsson 2.

Fyrri greinShahid var stjarnan á vellinum
Næsta greinUngmennaliðið á flugi gegn Þór