Hamar og Selfoss töpuðu

Terrence Motley skoraði 23 stig fyrir Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar og Selfoss töpuðu sínum leikjum í 1. deild karla í körfubolta í kvöld. Hamar heimsótti Sindra á Hornafjörð en Selfoss lék gegn Fjölni í Grafarvogi.

Leikur Sindra og Hamars byrjaði á mikilli skotsýningu en Sindramenn skoruðu 38 stig í 1. leikhluta. Hamar rétti sinn hlut með frábærri spilamennsku í 2. leikhluta og staðan var 51-57 í hálfleik. Hamar jók forskotið lítillega í 3. leikhluta og staðan var 67-76 í upphafi 4. leikhluta. Í kjölfarið fylgdi 12-1 áhlaup Sindra sem breytti stöðunni í 82-79 þegar þrjár og hálf mínúta var eftir. Hvergerðingar reyndu eins og þeir gátu en Sindramenn voru sterkari á lokasprettinum og sigruðu 95-91.

Michael Philips var sterkur fyrir Hamar með 19 stig og 10 fráköst en Jose Aldana var stigahæstur í liðinu með 21 stig.

Í Grafarvogi var einnig hörkuleikur og ákaflega kaflaskiptur.  Selfoss byrjaði betur en Fjölnir komst yfir fyrir leikhlé og staðan var 35-32 í hálfleik. Fjölnismenn voru sterkari í 3. leikhluta og náðu mest sextán stiga forskoti og Selfyssingum tókst ekki að vinna upp þann mun í 4. leikhluta, þrátt fyrir góðan endasprett. Lokatölur urðu 77-73.

Terrence Motley var bestur í liði Selfoss með 20 stig og 13 fráköst.

Staðan í deildinni er þannig að Hamar er í 2. sæti með 12 stig en Sindramenn eru í 3. sæti og jöfnuðu Hamar að stigum í kvöld. Hvergerðingar eiga þó einn leik til góða. Selfoss er í botnsætinu með 4 stig.

Tölfræði Hamars: Jose Aldana 21/7 stoðsendingar, Ragnar Jósef Ragnarsson 20, Michael Philips 19/10 fráköst, Daníel Sigmar Kristjánsson 10/6 fráköst, Ruud Lutterman 8/4 fráköst, Steinar Snær Guðmundsson 7, Pálmi Geir Jónsson 6/5 fráköst. 

Tölfræði Selfoss: Terrence Motley 20/13 fráköst, Kristijan Vladovic 14/4 fráköst, Aljaz Vidmar 11/10 fráköst, Ari Gylfason 9, Sveinn Búi Birgisson 6/6 fráköst, Kennedy Aigbogun 6, Arnór Bjarki Eyþórsson 5, Gunnar Steinþórsson 2.

Fyrri grein„Virkilega súr yfir þessu“
Næsta greinKveikt í gámi við Sunnulækjarskóla