Hamar og Selfoss töpuðu leikjum sínum í 1. deild karla í körfubolta í kvöld.
Í Hveragerði tók Hamar á móti Hetti frá Egilsstöðum. Hattarmenn náðu ágætis forskoti í fyrri hálfleik og leiddu 32-46 í hálfleik. Seinni hálfleikurinn var í járnum framan af en Hamri tókst ekki að brúa bilið og í fjórða leikhluta stungu gestirnir af. Lokatölur urðu 68-98. Dareial Franklin var stigahæstur hjá Hamri með 30 stig.
Á Selfossi mættust Selfoss og Sindri. Eins og Hveragerði voru það gestirnir sem lögðu grunninn að góðum sigri í fyrri hálfleiknum. Sindri leiddi 38-54 í hálfleik. Seinni hálfleikurinn var jafnari en Selfyssingum tókst ekki að minnka muninn að neinu ráði og lokatölur urðu 86-101. Trevon Evans var stigahæstur Selfyssinga með 34 stig en hæsta framlagið átti Gasper Rojko með 28 stig og 14 fráköst.
Selfoss er nú í 5. sæti deildarinnar með 4 stig en Hamar er í 7. sæti með 2 stig. Á milli þeirra sitja Hrunamenn með 4 stig.
Tölfræði Hamars: Dareial Franklin 30/6 fráköst, Maciek Klimaszewski 10/5 fráköst, Sigurður Dagur Hjaltason 8, Ragnar Magni Sigurjónsson 7, Pálmi Geir Jónsson 5/5 fráköst, Haukur Davíðsson 2, Arnar Dagur Daðason 2, Joao Lucas 2, Kristijan Vladovic 2/10 fráköst/10 stoðsendingar.
Tölfræði Selfoss: Trevon Evans 34/8 fráköst/5 stoðsendingar, Gasper Rojko 28/14 fráköst, Óli Gunnar Gestsson 15, Vito Smojer 8, Styrmir Jónasson 1, Sigmar Jóhann Bjarnason 4 fráköst.