Hamar tapaði stórt þegar liðið heimsótti topplið Hauka í Domino’s-deild kvenna í körfubolta í kvöld.
Haukar eru með langsterkasta liðið í deildinni í vetur og þær sýndu það strax í 1. leikhluta þar sem þær tóku leikinn í sínar hendur. Staðan í hálfleik var 49-22.
Hvergerðingar réttu úr kútnum í upphafi síðari hálfleiks en Haukar réðu svo lögum og lofum í síðasta fjórðungnum þar sem Hamar skoraði aðeins fimm stig, gegn tuttugu stigum Hauka. Lokatölur 84-49.
Hamar er enn á botni deildarinnar án stiga, þegar sex umferðum er lokið.
Tölfræði Hamars: Suriya McGuire 14 stig/9 fráköst, Nína Jenný Kristjánsdóttir 9 stig/5 fráköst, Salbjörg Ragna Sævarsdóttir 8 stig/7 fráköst (10 í framlag), Margrét Hrund Arnarsdóttir 6 stig/4 fráköst, Íris Ásgeirsdóttir 4 stig, Jóhanna Herdís Sævarsdóttir 4 stig, Hrafnhildur Magnúsdóttir 2 stig/5 fráköst/5 stoðsendingar, Karen Munda Jónsdóttir 2 stig.