Karlalið Hamars í körfubolta verður svipað mannað og í fyrravetur að undanskyldum fyrirliðanum Svavari Páli Pálssyni sem setti stóru skóna á hilluna í vor.
Í staðinn er kominn stór og stæðilegur miðherji úr Haukum, Örn Sigurðarson sem á að baki fjölda leikja með Haukum í úrvalsdeildinni. Íslensku strákanir verða annars allir áfram og auk þess hafa Hamarsmenn samið við Bandaríkjamanninn Jerry L. Hollis jr. um að leika með liðinu í vetur.
Hollis er tæplega tveggja metra framherji sem getur spilað nokkuð víða á vellinum. Hann spilaði fyrir Johnson C.Smith háskólann í fyrra en á síðasta ári sínu var hann með að meðaltali 7,8 fráköst, 15 stig og 2,5 stoðsendingar í leik.
Íslandsmótið í 1. deild fer af stað þann 12. október en þá leikur Hamar gegn Augnablik iá útivelli. Lengjubikarinn hefst 14. október á útileik við KFÍ.