Hamar vann gríðarlega mikilvægan sigur á Val á útivelli í 1. deild karla í körfubolta í kvöld. Úrslitin réðust í framlengingu, 96-98.
Fyrri hálfleikur var jafn, Valsmenn byrjuðu betur og leiddu 25-18 eftir 1. leikhluta en Hamar náði að minnka muninn í 44-42 fyrir hálfleik.
Hamar komst yfir í 3. leikhluta en um hann miðjan gerðu Valsmenn 17-3 áhlaup og náðu tíu stiga forskoti, 65-55. Hvergerðingar voru þó ekki af baki dottnir og komust yfir aftur þegar rúmar fjórar mínútur voru liðnar af 4. leikhluta, 71-73. Lokakaflinn var hnífjafn og spennandi en Valsmenn náðu að knýja fram framlengingu með því að jafna af vítalínunni 86-86 þegar fimm sekúndur voru eftir af venjulegum leiktíma.
Í framlengingunni skiptust liðin á að skora en Hamarsliðið var sterkara á lokamínútunni og Christopher Woods kláraði leikinn á vítalínunni. Lokatölur 96-98.
Hamar hefur nú 20 stig í 5. sæti deildarinnar þegar þrjár umferðir eru eftir. Liðið er þó ekki enn öruggt með sæti í úrslitakeppninni því Vestri andar niður um hálsmálið á Hvergerðingum í 6. sætinu með 16 stig.
Tölfræði Hamars: Christopher Woods 35 stig/24 fráköst/3 varin skot, Erlendur Ágúst Stefánsson 25 stig/5 fráköst/5 stoðsendingar, Hilmar Pétursson 19 stig/4 fráköst, Oddur Ólafsson 9 stig/5 fráköst, Rúnar Ingi Erlingsson 5 stig/5 fráköst/7 stoðsendingar, Smári Hrafnsson 3 stig, Örn Sigurðarson 2 stig.