Hamar vann góðan útisigur á Herði Ísafirði þegar liðin mættust á Torfnesvelli fyrir vestan í 4. deild karla í knattspyrnu í dag. Lokatölur urðu 3-6.
Hamar byrjaði betur í leiknum og Jordan Follows kom þeim yfir strax á 7. mínútu. Hamar skoraði svo þrjú mörk á sex mínútna kafla undir lok fyrri hálfleiks þegar þeir Follows, Tómas Hassing og Sam Malson bættu við mörkum. Hörður minnkaði muninn á 40. mínútu og staðan var 1-4 í hálfleik.
Seinni hálfleikurinn var rólegur fyrsta hálftímann en á síðasta korterinu fóru hlutirnir að gerast. Follows kom Hamri í 1-5 á 75. mínútu og innsiglaði þrennu sína en hann hefur skorað 11 mörk í fjórum leikjum og er orðinn markahæstur Hamarsmanna á Íslandsmótinu.
Mínútu síðar minnkaði Hörður muninn í 2-5 en á lokamínútunni kom Tómas Hassing Hamri í 2-6. Heimamenn áttu svo síðasta orðið í uppbótartímanum, lokatölur 3-6.
Þegar tveir leikir eru eftir af riðlakeppninni er Hamar í harðri baráttu um að ná sæti í úrslitakeppninni. Liðið hefur 25 stig í 3. sæti A-riðils og á erfiða leiki eftir, gegn Hvíta riddaranum sem er í 2. sæti með 25 stig eins og Hamar, og toppliði Kórdrengjanna.