Hamar lék á alls oddi í upphafi leiks og leiddi 9-24 eftir tæpar sjö mínútur. Þá kom slakur kafli þar sem bandaríski leikmaður Grindavíkur, Lauren Oosdyke, tók leikinn í sínar hendur og skoraði ellefu stig í röð og staðan eftir 1. leikhluta var 20-24.
Það sama var uppi á teningnum í 2. leikhluta, Hamar byrjaði vel og komst í 25-36 en Grundavík svaraði með 11-2 kafla þar sem Oosdyke var var aftur í aðalhlutverki og staðan var 36-38 í hálfleik.
Eftir kaflaskiptan fyrri hálfleik voru Hamarskonur betri aðilinn í seinni hálfleik, spiluðu fína vörn og juku forskotið jafnt og þétt. Að lokum skildu sextán stig liðin að og Hamar lyfti sér uppfyrir Grindavík á stigatöflunni og er nú í fjórða sæti með 10 stig.
Marín Laufey Davíðsdóttir átti flottan leik fyrir Hamar, skoraði 20 stig og tók 18 fráköst, Di’Amber Johnson átti einnig mjög góðan leik, skoraði sömuleiðis 20 stig, Fanney Lind Guðmundsdóttir skoraði 17, Íris Ásgeirsdóttir 11 og Jenný Harðardóttir 5.