Hamar varð fyrsta liðið til að sigra topplið HK í 2. deild kvenna í knattspyrnu þegar liðin mættust á Grýluvelli í Hveragerði í gærkvöldi.
Hamarskonur vörðust skipulega gegn HK en Kópavogsliðið hefur skorað langflest mörk liðanna í 2. deildinni í sumar. Fyrri hálfleikur var markalaus en á 75. mínútu fengu Hamarskonur vítaspyrnu eftir að brotið var á Katrínu Rúnardóttur í teignum. Katrín fór sjálf á punktinn og skoraði af öryggi.
Þetta reyndist eina mark leiksins og Hamarskonur fögnuðu vel í leikslok, en þetta var annar sigurleikur liðsins í sumar.
Hamar er í 7. sæti deildarinnar með 7 stig en HK er áfram á toppnum með 21 stig.