Hamarsmenn voru í feiknastuði þegar þeir heimsóttu Álafoss á Tungubakka í Mosfellsbæ í 4. deild karla í knattspyrnu í kvöld.
Darri Már Garðarsson kom Hamri yfir strax á 6. mínútu og á eftir fylgdu mörk frá Sören Balsgaard, Atla Þór Jónassyni og síðan annað mark frá Darra sem tryggði Hamri 0-4 forskot í hálfleik.
Alfredo Sanabria skoraði tvívegis um miðjan seinni hálfleikinn áður en Álafoss náði að laga stöðuna og breyta henni í 1-6. Hamar átti hins vegar síðasta orðið. Atli Þór bætti við tveimur mörkum og innsiglaði þrennuna og Jón Bjarni Sigurðsson skoraði eitt mark til þannig að lokatölur urðu 1-9.
Þetta var fyrsti sigur Hamars í deildinni í sumar en liðið er í 4. sæti D-riðils að loknum tveimur umferðum.