Sunnlensku liðin unnu öll sína leiki í 4. deildinni í kvöld. Hamar er í hörkubaráttu um sæti í úrslitakeppninni og Árborg á ennþá möguleika. Ægismenn eru öruggir með toppsætið í sínum riðli.
Hvergerðingar blómstruðu í kvöld á móti Létti enda verkefnið alls ekki þungt. Sam Malson kom Hamri yfir á 11. mínútu og á eftir fylgdu tvö mörk frá Brynjólfi Þór Eyþórssyni. Léttir minnkaði muninn í 3-1 með marki úr vítaspyrnu á 37. mínútu og þannig stóðu leikar í hálfleik. Í seinni hálfleiknum raðaði Hamar inn mörkum. Brynjólfur bætti við þrennu og skoraði fimm mörk samtals, Malson endaði í tveimur mörkum, eins og Bjarki Rúnar Jónínuson og Jón Bjarni Sigurðsson skoraði eitt. Lokatölur 10-1.
Árborgarar sterkari á svellinu
Árborg tók á móti Skautafélagi Reykjavíkur á gervigrasinu á Selfossi. Magnús Helgi Sigurðsson skoraði fyrsta mark leiksins á 25. mínútu en SR jafnaði á 41. mínútu og staðan var 1-1 í hálfleik. Árborgarar voru sterkari á svellinu í seinni hálfleik og Daníel Ingi Birgisson kom þeim í 2-1 á 74. mínútu. Magnús Helgi skoraði þriðja mark Árborgar með skalla á 84. mínútu eftir magnaðan undirbúning Guðmundar Garðars Sigfússonar sem sólaði hvern andstæðinginn á fætur öðrum. Skautafélagið hleypti spennu í leikinn þremur mínútum síðar þegar þeir minnkuðu muninn í 3-2 úr skyndisókn en Magnús Helgi skallaði boltann í netið og innsiglaði þrennu sína og 4-2 sigur Árborgar á 89. mínútu.
Öruggt hjá Ægismönnum
Í Þorlákshöfn tók Ægir á móti Knattspyrnufélagi Ásvalla og þar byrjuðu þeir gulu af krafti en Atli Rafn Guðbjartsson kom Ægi yfir á 3. mínútu eftir þunga sókn. Ásgrímur Þór Bjarnason tvöfaldaði forskot Ægis á 44. mínútu og staðan var 2-0 í hálfleik. Það var hart barist í síðari hálfleik, Ægismenn voru sterkari og fengu fjölda færa en eina markið skoraði Goran Potkozarac á 70. mínútu og tryggði þeim 3-0 sigur.
Spenna í lokaumferðinni
Ægir er öruggt með toppsætið í D-riðlinum þegar ein umferð er eftir en liðið hefur 29 stig. Ægir mætir annað hvort Ými eða Árborg í 8-liða úrslitum en til þess þarf Árborg að vinna topplið A-riðils, Björninn, í lokaumferðinni og treysta á að Ýmir tapi stigum gegn Samherjum á heimavelli.
Spennan er líka mikil í C-riðlinum þegar ein umferð er eftir. Hamar er í 2. sæti með 27 stig, einu stigi á undan Berserkjum. Hamar mætir taplausu toppliði GG í lokaumferðinni á meðan Berserkir mæta botnliði Stokkseyrar.