Hamarsmenn eru komnir í úrslitaeinvígi 1. deildar karla í körfubolta eftir sigur á Fjölni í framlengdum þriðja leik liðanna í Hveragerði í kvöld.
Hamar sigraði að lokum, 109-107, og vann því einvígið gegn Fjölni 3-0. Hamar mætir Ármanni eða Breiðabliki í einvígi um sæti í úrvalsdeildinni á næstu leiktíð.
Leikurinn í kvöld var mjög sveiflukenndur og liðunum tveimur var fyrirmunað að tengja saman tvo góða leikhluta. Hamar leiddi með tíu stigum að loknum fyrsta leikhluta en staðan var 49-42 í hálfleik.
Hvergerðingar virtust ætla að gera út um leikinn í 3. leikhluta og í upphafi þess fjórða var staðan orðin 84-67. Þá gerðu gestirnir áhlaup og þeir jöfnuðu 93-93 þegar átján sekúndur voru eftir og tryggðu sér framlengingu.
Fjölnir komst í 98-104 í framlengingunni en þá komu tíu stig í röð frá Hamri sem tryggðu þeim sigurinn. Fjölnir skoraði síðustu þrjú stig leiksins og lokatölur urðu 108-107.
Jose Medina var stiga- og framlagshæstur Hamarsmanna með 40 stig og 12 stoðsendingar, Jaeden King skoraði 35 stig og tók 11 fráköst og Ragnar Nathanaelsson átti sömuleiðis góðan leik með 17 stig og 19 fráköst.
Hamar-Fjölnir 109-107 (31-21, 18-21, 32-23, 12-28, 16-14)
Tölfræði Hamars: Jose Medina 40/12 stoðsendingar, Jaeden King 35/11 fráköst, Ragnar Nathanaelsson 17/19 fráköst, Birkir Máni Daðason 6, Daníel Sigmar Kristjánsson 5/6 fráköst, Egill Þór Friðriksson 3, Arnar Dagur Daðason 3, Lúkas Aron Stefánsson 4 fráköst.