Vonir kvennaliðs Hamars um sæti í úrslitakeppni Domino's-deildarinnar í körfubolta urðu að engu í kvöld þegar liðið steinlá á útivelli gegn Val, 88-54.
Valur hafði töglin og hagldirnar allan tímann og héldu Chelsie Schweers og öðrum Hamarskonum í skefjum. Staðan í hálfleik var 46-31 en Valsarar juku forystuna enn frekar í síðari hálfleik.
Marín Davíðsdóttir var best hjá Hamri með 18 stig og 10 fráköst, Fanney Lind Guðmundsdóttir skoraði 15 stig og tók einnig 10 fráköst, Chelsie Schweers skoraði 13 stig og var líka með 10 fráköst, Kristrún Rut Antonsdóttir skoraði 5 stig, Hafdís Ellertsdóttir 2 og Sóley Guðgeirsdóttir 1.
Það er því ljóst að Valur er fjórða liðið inn í úrslitakeppnina en Hamar situr eftir og er nú í 5. sæti þegar ein umferð er eftir.