Karlalið Hamars steinlá gegn úrvalsdeildarliði Njarðvíkur í Lengjubikarnum í körfubolta í kvöld, 90-54 í Njarðvík.
Njarðvík byrjaði betur og komst í 14-4 en Hvergerðingar girtu sig þá í brók og minnkuðu muninn í 19-16. Njarðvík skoraði hins vegar síðustu níu stigin í 1. leikhluta og leiddi, 28-16 að honum loknum.
Hvergerðingar voru hreinlega ekki með í 2. leikhluta, Njarðvík komst í 36-18 og þeir grænu skoruðu svo fimmtán stig í röð undir lokin og leiddu 51-24 í hálfleik.
Munurinn hélst svipaður í 3. leikhluta en Njarðvík náði mest 32 stiga forskoti, 63-31. Munurinn jókst svo enn frekar í síðasta fjórðungnum þar sem Hamar skoraði aðeins sjö stig gegn átján stigum Njarðvíkur.
Stig Hamars: Brandon Cotton 23, Louie Arron Kirkman 10/4 fráköst, Bjarni Rúnar Lárusson 8/6 fráköst, Halldór Gunnar Jónsson 6, Björgvin Jóhannesson 3/9 fráköst, Mikael Rúnar Kristjánsson 2, Emil F. Þorvaldsson 2.