Hamar vann grannaslaginn gegn Selfossi í 1. deild karla í körfubolta í kvöld þegar liðin mættust í Frystikistunni í Hveragerði, 94-88.
Hamar kafsigldi Selfoss strax í 1. leikhluta og skoraði 36 stig gegn 18. Selfyssingar náðu hins vegar vopnum sínum aftur í 2. leikhluta og náðu að minnka muninn í 56-44 fyrir hálfleik.
Seinni hálfleikur var jafn framan af, Hamar hélt Selfyssingum í hæfilegri fjarlægð en í 4. leikhluta fóru leikar að æsast. Hamar var skrefinu á undan fyrstu mínúturnar en þegar tæpar fimm mínútur voru liðnar tóku Selfyssingar sig til og skoruðu 13 stig í röð og minnkuðu muninn í tvö stig, 88-86.
Hvergerðingar héldu haus og juku muninn aftur í sex stig og héldu því forskoti síðustu tvær mínúturnar.
Everage Richardson var bestur í liði Hamars en hann skoraði 31 stig í kvöld en hjá Selfyssingum var Snjólfur Stefánsson sterkastur með 14 stig og 10 fráköst.
Hamar er nú í 4. sæti deildarinnar með 10 stig en Selfoss er í 6. sæti með 6 stig.
Tölfræði Hamars: Everage Lee Richardson 31/8 fráköst/7 stoðsendingar, Marko Milekic 19/9 fráköst, Florijan Jovanov 14/12 fráköst, Dovydas Strasunskas 12/4 fráköst, Gabríel Sindri Möller 5, Geir Elías Úlfur Helgason 4, Örn Sigurðarson 4, Oddur Ólafsson 3/8 stoðsendingar, Arnór Sveinsson 2.
Tölfræði Selfoss: Arminas Kelmelis 17, Michael E Rodriguez 17/5 fráköst/6 stoðsendingar, Snjólfur Marel Stefánsson 14/10 fráköst, Ari Gylfason 13, Christopher Caird 8, Björn Ásgeir Ásgeirsson 6, Hlynur Freyr Einarsson 5, Adam Smari Olafsson 5/5 fráköst, Svavar Ingi Stefánsson 3.