Hamar T1 bikarmeistari

Um síðustu helgi fór fram Bikarmót Fimleikasambands Íslands í stökkfimi á Akranesi. Eitt lið frá Hamri í Hveragerði krækti í bikarmeistaratitil.

Mótið er liðakeppni í fjölþraut þar sem þrír til fimm keppendur eru saman í liði og gilda þrjár hæstu einkunnirnar til stiga á á einstökum áhöldum. Hamar sendi þrjú lið og tvo iðkendur sem kepptu sem gestir því það þarf að lágmarki þrjá keppendur til að mynda lið.

Stúlkurnar í liði Hamars T1 urðu bikarmeistarar í flokki 15-16 ára b. Þær hafa æft af kappi í allan vetur og var þetta ánægjulegur sigur fyrir liðið. Liðið skipuðu þær Dröfn Einarsdóttir, Sóldís Anna Guðjónsdóttir, Kolbrún Marín Wolfram, Kristín Lára Hauksdóttir og Nína Þöll Birkisdóttir.

Tvö lið kepptu í flokki 11 – 12 ára b, Hamar T4 og T5. Lið T4 náði þeim árangri að lenda í 2. sæti rétt á eftir Bjarkarstúlkum. Liðið skipuðu þær Kolbrún Rósa Gunnarsdóttir, Thelma Rakel Sumarliðadóttir og Sigrún Tinna Björnsdóttir, efnilegar stúlkur sem hafa tekið miklum framförum í vetur.

Þau Jana Rún Hermannsdóttir og Eyjólfur Örn Höskuldsson kepptu sem gestir og áttu góðan dag og stóðu sig eins og aðrir keppendur frá Hamri með mikilli prýði.


Efri röð Hamar T5: Margrét, Katla Nótt og Camilla Rós. Neðri röð Hamar T4: Kolbrún Rósa, Sigrún Tinna og Thelma Rakel.


Jana Rún og Eyjólfur Örn.

Fyrri greinNýtt óháð framboð í Rangárþingi eystra
Næsta greinRagnar leiðir H-listann áfram