Hamar sótti Val heim að Hlíðarenda í fyrirtækjabikar kvenna í körfubolta í dag. Valskonur voru sterkari í síðari hálfleik og unni 80-59 sigur.
Leikurinn var jafn í 1. leikhluta en Valur leiddi að honum loknum, 19-18. Jafnræðið hélt áfram í 2. leikhluta, liðin skiptust á um að halda forystunni en Valur skoraði sex síðustu stigin í fyrri hálfleik og leiddi í leikhléi, 35-32.
Valur gerði svo út um leikinn í síðari hluta 3. leikhluta þegar þær tóku 18-2 áhlaup og breyttu stöðunni úr 43-41 í 61-43. Þannig stóðu leikar í upphafi síðasta fjórðungsins og Hamarskonur áttu ekki afturkvæmt.
Fanney Lind Guðmundsdóttir var stigahæst hjá Hamri með 17 stig, Íris Ásgeirsdóttir skoraði 15, Di’Amber Johnson 14, Dagný Lísa Davíðsdóttir 6, Marín Laufey Davíðsdóttir 4 auk þess að taka 14 fráköst, Regína Ösp Guðmundsdóttir skoraði 2 stig og Jenný Harðardóttir 1.