Hamarsmönnum mistókst að jafna FSu að stigum í toppbaráttu 1. deildar karla í körfubolta í kvöld þegar liðið tapaði fyrir Breiðablik á heimavelli, 74-86.
Leikurinn var jafn allan tímann en Hamar leiddi í hálfleik, 33-32. Í upphafi síðari hálfleiks náði Breiðablik hins vegar tíu stiga forskoti, með 11 stigum í röð.
Hamar komst aftur yfir í upphafi 4. leikhluta, 60-59, en 4-16 áhlaup Breiðabliks um miðjan 4. leikhluta gerði endanlega út um leikinn.
Sigurður Orri Hafþórsson var stigahæstur hjá Hamri með 18 stig, Örn Sigurðarson skoraði 17, Þorsteinn Gunnlaugsson 15 auk þess að taka 13 fráköst, Julian Nelson skoraði 13 stig og tók 10 fráköst, Mikael Kristjánsson skoraði 6 stig, Bjartmar Halldórsson 4 og Bjarni Rúnar Lárusson 3.