Hamar beið lægri hlut gegn KFÍ, 79-68, í 1. umferð 1. deildar karla í körfubolta í kvöld.
Liðin mættust í Jakanum á Ísafirði en bæði þessi lið féllu úr Iceland Express-deildinni í vor.
Fyrsti leikhluti var hnífjafn og staðan að honum loknum var 15-15. Útlendingarnir í liði Hamars, Louie Kirkman og Terrence Worthy voru þeir einu sem komust á blað í 1. leikhluta þar sem Kirkman skoraði 11 stig.
Jafnræðið hélt áfram í 2. leikhluta en Hamar náði mest fimm stiga forskoti, 23-28. Staðan var 30-32 í hálfleik.
Stigamunurinn var lítill í 3. leikhluta, allt þangað til tæpar þrjár mínútur voru eftir en KFÍ breytti þá stöðunni úr 45-45 í 54-49 og þannig stóðu leikar þegar síðasti fjórðungurinn hófst.
Hamar minnkaði muninn í 54-53 í upphafi 4. leikhluta en nær komust Hvergerðingar ekki og KFÍ náði fljótlega 11 stiga forskoti sem þeir héldu til leiksloka. Hamar klikkaði á sjö vítaskotum í síðasta leikhlutanum, og munaði um minna.
Kirkman skoraði 24 stig fyrir Hamar, Worthy 17, Stefán Halldórsson 7, Halldór Gunnar Jónsson 6, Bjarni Rúnar Lárusson 5/13 fráköst, Ragnar Nathanaelsson 4/6 fráköst, Svavar Páll Pálsson 3/5 fráköst og Emil Þorvaldsson 2.
Sunnlendingarnir í liði KFÍ voru atkvæðamiklir. Ari Gylfason skoraði 15 stig, Jón H. Baldvinsson 13 og Sigurður Orri Hafþórsson 2.