Hamar beið lægri hlut, 92-78, þegar liðið heimsótti Tindastól í Iceland Express deild karla í körfubolta í kvöld.
Jafnt var á með liðunum framan af leik en í 2. leikhluta tóku heimamenn á sprett og leiddu í hálfleik, 50-42.
Hamar náði að minnka muninn í tvö stig þegar rúmar þrjár mínútur voru eftir af 3. leikhluta, 59-57, en nær komust Hvergerðingar ekki. Stólarnir tóku aftur við sér í upphafi síðasta fjórðungsins og náðu mest 19 stiga forskoti þegar tæpar þrjár mínútur voru eftir af leiknum.
Andre Dabney var stigahæstur Hamarsmanna með 23 stig, Darri Hilmarsson skoraði 19 og Snorri Þorvaldsson 9.
Hamar er nú í 7. sæti deildarinnar með 6 stig en á leik til góða á liðin fyrir ofan sig þar sem leiknum gegn KFÍ sl. föstudag var frestað.