Hamar tapaði 71-58 þegar liðið heimsótti topplið Snæfells í Domino's-deild kvenna í körfubolta í dag.
Fyrsti leikhlutinn var jafn en Snæfell þaut framúr í 2. leikhluta þegar liðið skoraði fimmtán stig í röð og breytti stöðunni úr 16-19 í 31-19. Staðan í hálfleik var 33-24.
Snæfell jók forskotið enn frekar í upphafi síðari hálfleiks með 11-2 áhlaupi og staðan þá orðin 44-26. Hamar náði að minnka muninn niður í sjö stig, 59-52 í upphafi 4. leikhluta en nær komust Hvergerðingar ekki og lokatölur urðu 71-58.
Fimm leikmenn Hamars komust á blað í dag; Di’Amber Johnson skoraði 21 stig, Fanney Lind Guðmundsdóttir 17, Íris Ásgeirsdóttir 14, Sóley Guðgeirsdóttir 4 og Kristrún Rut Antonsdóttir 2.
Hamar er í 6. sæti deildarinnar með 12 stig.