Hamar tók á móti Fjölni í 1. deild karla í körfubolta í kvöld. Gestirnir reyndust sterkari og sigruðu örugglega, 78-94.
Gestirnir náðu 9-18 forystu strax í 1. leikhluta en staðan að honum loknum var 14-26. Hamar byrjaði 2. leikhluta á 11-2 áhlaupi og minnkaði muninn í 25-28. Þá kviknaði aftur á gestunum sem leiddu í hálfleik, 44-55.
Munurinn hélst sá sami fram í miðjan 3. leikhluta en þá skoruðu gestirnir tólf stig í röð og náðu tuttugu stiga forskoti, 55-75. Þá var allur vindur úr Hvergerðingum sem náðu aðeins að minnka muninn í sextán stig í 4. leikhluta en nær komust þeir ekki.
Snorri Þorvaldsson var stigahæstur Hvergerðinga með 20 stig, Danero Thomas skoraði 19, Halldór Gunnar Jónsson 14, Emil Fannar Þorvaldsson 6 og Aron Freyr Eyjólfsson 6, Stefán Halldórsson, Bjartmar Halldórsson og Bragi Bjarnason skoruðu allir 4 stig og Bjarni Rúnar Lárusson 1/.
Hamar er í 6. sæti deildarinnar með 16 stig þegar einum leik er ólokið.