Hamar tapaði gegn Snæfelli, 71-78, í spennandi leik í Domino's-deild kvenna í körfubolta í Hveragerði í kvöld.
Snæfell byrjaði betur, skoraði fyrstu sex stig leiksins og þegar tvær mínútur voru eftir af 1. leikhluta var staðan 6-16. Hamar skoraði hins vegar síðustu fimm stigin í 1. leikhluta og minnkaði muninn í 11-16.
Þegar þrjár mínútur voru liðnar af 2. leikhluta var staðan orðin 19-20. Snæfell spýtti þá í lófana aftur en Hamar fylgdi þeim eins og skugginn og staðan í hálfleik var 33-37.
Eftir mikla baráttu í 3. leikhluta jafnaði Hamar 53-53 þegar mínúta var eftir af leikhlutanum og Hvergerðingar komust yfir í fyrsta sinn í fyrstu sókn síðasta fjórðungsins, 57-56.
Snæfell náði hins vegar fljótlega frumkvæðinu í 4. leikhluta eftir 2-12 áhlaup þar sem gestirnir voru komnir með níu stiga forskot, 61-70. Síðustu fimm mínúturnar voru Hvergerðingar sterkari og náðu að minnka muninn niður í tvö stig en síðustu sóknir liðsins runnu út í sandinn og gestirnir unnu að lokum sjö stiga sigur, 71-78.
Di’Amber Johnson var besti maður vallarins með 29 stig, Íris Ásgeirsdóttir skoraði 15, Marín Laufey Davíðsdóttir 13 auk þess að taka 10 fráköst og Fanney Lind Guðmundsdóttir skoraði 9 stig og tók 15 fráköst.