Hamar tapaði stórt þegar Haukar komu í heimsókn í Frystikistuna í Hveragerði í Domino’s-deild kvenna í körfubolta í kvöld.
Hamar byrjaði vel í leiknum, komst í 8-0, en Haukar jöfnuðu 13-13 undir lok 1. leikhluta. Munurinn á liðunum var lítill fram í miðjan 2. leikhluta en Haukar skoruðu síðustu þrettán stigin í fyrri hálfleik og breyttu stöðunni úr 19-22 í 19-35, og þannig stóðu leikar í hálfleik.
Haukar voru mun ákveðnari í upphafi síðari hálfleiks og náðu mest 28 stiga forskoti en staðan var 32-59 þegar síðasti fjórðungurinn hófst. Þar tókst Hvergerðingum ekki að brúa bilið og niðurstaðan varð stórt tap, 41-70.
Sydnei Moss var stigahæst hjá Hamri með 14 stig og 12 fráköst. Þórunn Bjarnadóttir skoraði 9 stig, Sóley Guðgeirsdóttir 6, Kristrún Rut Antonsdóttir og Salbjörg Sævarsdóttir 5 og Jóhanna Herdís Sævarsdóttir 2.
Hamar er í 6. sæti deildarinnar með 4 stig að loknum 11 umferðum.