Hamar hóf keppni í 2. deild kvenna í knattspyrnu í dag þegar liðið heimsótti HK í Kórinn í Kópavogi.
HK komst yfir með sjálfsmarki Hamars á 23. mínútu og staðan í hálfleik var 1-0. Ekki dró til tíðinda í seinni hálfleik fyrr en á 74. mínútu að leikmaður HK fékk að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt. Manni færri tókst HK að skora tvö mörk á lokakaflanum þannig að úrslit leiksins urðu 3-0.
Næsti leikur Hamars er á heimavelli næstkomandi laugardag, þegar Hamrarnir frá Akureyri koma í heimsókn á Grýluvöll.