Nýliðarnir í úrvalsdeild karla í körfubolta, Hamar og Álftanes, áttust við á Álftanesi í kvöld. Heimamenn reyndust sterkari og sigruðu 86-79.
Álftanes hafði forystuna frá fyrstu mínútu og stóð af sér öll áhlaup Hamars. Staðan var 25-12 eftir 1. leikhluta en Hvergerðingar minnkuðu muninn í 11 stig fyrir leikhlé, 48-37.
Hamar byrjaði ágætlega í seinni hálfleik og breytti stöðunni í 52-44 en þá tóku Álftnesingar á rás og juku forskotið snarlega í 21 stig, 66-45. Munurinn var um og yfir 20 stig vel fram í 4. leikhluta en þá skoruðu Hamarsmenn sautján stig í röð og náðu að minnka muninn í eitt stig á lokamínútunni, 80-79. Álftanes átti hins vegar síðasta orðið og skoraði sex síðustu stigin í leiknum.
Franck Kamgain var stigahæstur Hamarsmanna með 25 stig og 5 stoðsendingar, Maurice Creek skoraði 14 stig og tók 5 fráköst og Ragnar Nathanaelsson skoraði 13 stig og tók 14 fráköst.
Þetta var fyrsti leikurinn í sjöttu umferð deildarinnar og Hamar er enn án stiga á botninum, ásamt Breiðabliki sem á leik til góða.