Nýliðar Hamars töpuðu stórt þegar liðið heimsótti Val í úrvalsdeild karla í körfubolta í kvöld.
Hamarsmenn byrjuðu leikinn vel og leiddu 15-21 eftir átta mínútur. Í kjölfarið fór allt í skrúfuna og ekkert gekk upp í sókninni hjá Hamri. Valur jók forskotið hratt og í hálfleik var staðan orðin 56-31.
Valsmenn gerðu endanlega út um leikinn í upphafi seinni hálfleiks og þegar fjórði leikhluti hófst var staðan 77-42. Munurinn hélst svipaður á lokakaflanum og Valur sigraði að lokum 100-64.
Ragnar Nathanaelsson var stigahæstur Hamarsmanna með 12 stig og 12 fráköst, Franck Kamgain skoraði 11 stig og sendi 6 stoðsendingar, Jose Medina 11 og Danero Thomas 10.