Hamar tekur forystuna í einvíginu

Hamar tók í kvöld forystuna í einvíginu gegn Fjölni í úrslitakeppni 1. deildar karla í körfubolta með góðum sigri á útivelli, 86-91.

Fjölnismenn mættu til leiks án Marquise Oliver en hann var dæmdur í þriggja leikja bann eftir að hafa verið rekinn úr húsi í síðasta leik liðanna fyrir óíþróttamannslega villu, þegar hann braut á Christopher Woods undir lok venjulegs leiktíma.

Olivers-lausir Fjölnismenn eru samt engin lömb að leika sér við, því þeir eiga Collin Pryor uppi í erminni, Þorstein Gunnlaugsson og fleiri mjög öfluga leikmenn. Hamar fékk að finna fyrir því í fyrri hálfleik því heimamenn leiddu 45-38 í leikhléi.

Það var hins vegar „Hammertime“ í 3. leikhluta þar sem Hamar gerði 19-2 áhlaup og breytti stöðunni úr 54-41 í 56-60 á skömmum tíma. Staðan var 63-65 þegar 4. leikhluti hófst.

Fjölni tók forystuna í upphafi síðasta fjórðungsins en Hamar svaraði um miðjan leikhlutann og leiddi með fimm stigum þegar tæpar fimm mínútur voru eftir, 75-80. Fjölnismenn gerðu harða hríð að Hvergerðingum undir lokin en alltaf svöruðu Hamarsmenn með körfu og Hilmar Pétursson setti niður tvo mikilvæga þrista á lokakaflanum sem fóru langt með að tryggja Hamri sigur.

Tölfræði Hamars: Erlendur Stefánsson 20 stig, Hilmar Pétursson 19 stig/4 fráköst, Christopher Woods 16 stig/13 fráköst, Örn Sigurðarson 15 stig/6 fráköst, Rúnar Ingi Erlingsson 7 stig/7 stoðsendingar, Oddur Ólafsson 6 stig, Smári Hrafnsson 6 stig, Snorri Þorvaldsson 2 stig.

Fyrri grein„Við áttum alls ekki góðan dag“
Næsta greinMargmála ljóðakvöld í Listasafninu