Hamar/Þór verður í botnsæti úrvalsdeildar kvenna í körfubolta um jólin en liðið tapaði 82-73 á einum erfiðasta heimavelli landsins þegar liðið heimsótti Þór Akureyri í kvöld.
Hamar/Þór skoraði fyrstu sex stig leiksins og náði mest þrettán stiga forskoti í 1. leikhluta. Staðan að honum loknum var 18-29. Þór Ak svaraði með því að skora fyrstu þrettán stigin í 2. leikhluta og þær bættu enn frekar í eftir það og náðu tíu stiga forskoti fyrir hálfleik, 47-37.
Þær sunnlensku náðu ekki að þjarma almennilega að Þór í seinni hálfleiknum. Þór Ak náði nítján stiga forskoti í 3. leikhluta en Hamar/Þór minnkaði muninn í ellefu stig í upphafi 4. leikhluta. Lengra náði það ekki, Þór Ak tók á sprett og komst í 80-60 þegar fjórar mínútur voru eftir. Hamar/Þór kláraði leikinn með 13-2 áhlaupi en það dugði ekki til að brúa bilið og Þór Ak sigraði með 9 stiga mun.
Abby Beeman var með þrefalda tvennu fyrir Hamar/Þór, 18 stig, 13 fráköst og 10 stoðsendingar.
Eftir ellefu umferðir er Hamar/Þór á botni deildarinnar með 6 stig en Þór Ak er í 4. sæti með 14 stig.
Þór Ak.-Hamar/Þór 82-73 (18-29, 29-8, 18-16, 17-20)
Tölfræði Hamars/Þórs: Abby Beeman 18/13 fráköst/10 stoðsendingar/5 stolnir, Hana Ivanusa 13/5 fráköst, Hulda Ósk Bergsteinsdóttir 10/7 fráköst, Kristrún Ríkey Ólafsdóttir 8/8 fráköst, Emma Sóldís Svan Hjördísardóttir 7, Fanney Ragnarsdóttir 6, Anna Soffía Lárusdóttir 4, Gígja Rut Gautadóttir 3, Matilda Sóldís Svan Hjördísardóttir 2, Jóhanna Ýr Ágústsdóttir 2.