Hamar/Þór á botninum um jólin

Abby Beeman. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar/Þór verður í botnsæti úrvalsdeildar kvenna í körfubolta um jólin en liðið tapaði 82-73 á einum erfiðasta heimavelli landsins þegar liðið heimsótti Þór Akureyri í kvöld.

Hamar/Þór skoraði fyrstu sex stig leiksins og náði mest þrettán stiga forskoti í 1. leikhluta. Staðan að honum loknum var 18-29. Þór Ak svaraði með því að skora fyrstu þrettán stigin í 2. leikhluta og þær bættu enn frekar í eftir það og náðu tíu stiga forskoti fyrir hálfleik, 47-37.

Þær sunnlensku náðu ekki að þjarma almennilega að Þór í seinni hálfleiknum. Þór Ak náði nítján stiga forskoti í 3. leikhluta en Hamar/Þór minnkaði muninn í ellefu stig í upphafi 4. leikhluta. Lengra náði það ekki, Þór Ak tók á sprett og komst í 80-60 þegar fjórar mínútur voru eftir. Hamar/Þór kláraði leikinn með 13-2 áhlaupi en það dugði ekki til að brúa bilið og Þór Ak sigraði með 9 stiga mun.

Abby Beeman var með þrefalda tvennu fyrir Hamar/Þór, 18 stig, 13 fráköst og 10 stoðsendingar.

Eftir ellefu umferðir er Hamar/Þór á botni deildarinnar með 6 stig en Þór Ak er í 4. sæti með 14 stig.

Þór Ak.-Hamar/Þór 82-73 (18-29, 29-8, 18-16, 17-20)
Tölfræði Hamars/Þórs: Abby Beeman 18/13 fráköst/10 stoðsendingar/5 stolnir, Hana Ivanusa 13/5 fráköst, Hulda Ósk Bergsteinsdóttir 10/7 fráköst, Kristrún Ríkey Ólafsdóttir 8/8 fráköst, Emma Sóldís Svan Hjördísardóttir 7, Fanney Ragnarsdóttir 6, Anna Soffía Lárusdóttir 4, Gígja Rut Gautadóttir 3, Matilda Sóldís Svan Hjördísardóttir 2, Jóhanna Ýr Ágústsdóttir 2.

Fyrri greinTanja og Aníta sæmdar starfsmerki Fimleikasambands Íslands
Næsta greinSkötuveisla Ungmennafélags Stokkseyrar 25 ára