Hamar-Þór vann glæsilegan sigur á Ármanni í 1. deild kvenna í körfubolta í kvöld, 73-102 á útivelli.
Hamar-Þór byrjaði vel og leiddi 16-25 að loknum 1. leikhluta. Sóknarleikur liðsins var áfram góður í 2. leikhluta og þær sunnlensku voru komnar með gott forskot í hálfleik, 38-51. Munurinn hélt áfram að aukast jafnt og þétt í seinni hálfleik og niðurstaðan var sanngjarn sigur Hamars-Þórs.
Jenna Mastellone var mjög öflug í liði Hamars-Þórs með 38 stig og Hildur Björk Gunnsteinsdóttir átti sömuleiðis frábæran leik með 22 stig, 7 fráköst og 7 stoðsendingar.
Með sigrinum lyfti Hamar-Þór sér upp í 5. sæti deildarinnar, liðið er með 6 stig eftir sjö leiki.
Tölfræði Hamars-Þórs: Jenna Mastellone 38, Hildur Björk Gunnsteinsdóttir 22/7 fráköst/7 stoðsendingar, Emma Hrönn Hákonardóttir 18/4 fráköst, Stefanía Ósk Ólafsdottir 8, Gígja Rut Gautadóttir 6/6 fráköst/4 varin skot, Jóhanna Ýr Ágústsdóttir 4/6 fráköst, Sigrún Elfa Ágústsdóttir 4/6 fráköst, Ragnhildur Arna Kristinsdóttir 2.