Hamar/Þór vann öruggan sigur á Keflavík-b í 1. deild kvenna í körfubolta í dag þegar liðin mættust í Þorlákshöfn.
Jafnræði var með liðunum framan af leik en undir lok 1. leikhluta gerði Hamar/Þór 11-3 áhlaup og leiddi eftir það 24-16. Munurinn jókst hratt í 2. leikhluta og í hálfleik var staðan 38-21.
Hákon Hjartarson, þjálfari Hamars/Þórs, gat hvílt lykilmenn stærstan hluta seinni hálfleiksins þannig að allir leikmenn liðsins fengu mikilvægar mínútur í dag. Seinni hálfleikurinn var mun jafnari en sigur Hamars/Þórs aldrei í hættu og lokatölur urðu 69-54.
Aniya Thomas var stigahæst hjá Hamri/Þór með 21 stig og 7 fráköst á tæpum 18 mínútum, Emma Hrönn Hákonardóttir skoraði 10 stig og sendi 7 stoðsendingar, Þóra Auðunsdóttir skoraði 9 stig, Hildur Gunnsteinsdóttir 8, Anna Katrín Víðisdóttir 7, Kristrún Ríkey Ólafsdóttir skoraði 5 stig og tók 12 fráköst, Jóhanna Ágústsdóttir skoraði 4 stig, Helga María Janusdóttir 3 og Gígja Rut Gautadóttir 2.
Hamar/Þór er í 4. sæti deildarinnar með 10 stig en Keflavík-b er í 6. sæti með 8 stig.