Hamar/Þór byrjar árið af krafti

Bergdís Anna Magnúsdóttir sækir að Grétu Björg Melsted undir körfu Aþenu í dag. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar/Þór vann öruggan sigur á Aþenu í úrvalsdeild kvenna í körfubolta í fyrsta leiknum eftir jólafrí. Lokatölur í Frystikistunni í Hveragerði urðu 100-83.

Það tók þær sunnlensku heilan leikhluta að rífa sig í gang eftir jólafríið. Aþena fór betur af stað og leiddi 18:25 eftir 1. leikhluta. Allt var í járnum í upphafi 2. leikhluta en á síðustu fimm mínútum fyrri hálfleiks átti Hamar/Þór frábæran 19-7 kafla sem skilaði þeim sjö stiga forystu í hálfleik, 50-43.

Hamar/Þór hafði algjöra yfirburði í 3. leikhluta og Aþena skoraði aðeins 6 stig úr opnum leik. Undir lok 3. leikhluta var staðan orðin 77-51 og úrslitin ráðin. Heimakonur létu kné fylgja kviði í 4. leikhluta og unnu að lokum sannfærandi sigur, með sautján stiga mun, eftir að Aþena hafði skorað síðustu sex stigin í leiknum.

Abby Beeman var framlagshæst hjá Hamri/Þór með risaþrennu; 32 stig, 16 stoðsendingar og 10 fráköst. Emma Sóldís Hjördísardóttir skorði 24 stig og Hana Ivanusa skoraði 16 stig og tók 8 fráköst.

Hamar/Þór er í 8. sæti úrvalsdeildarinnar með 8 stig en Aþena er í 9. sæti með 6 stig.

Hamar/Þór-Aþena 100-83 (18-25, 32-18, 27-14, 23-26)
Tölfræði Hamars/Þórs: Abby Beeman 32/10 fráköst/16 stoðsendingar/8 stolnir, Emma Sóldís Hjördísardóttir 24/5 fráköst, Hana Ivanusa 16/8 fráköst, Hulda Ósk Bergsteinsdóttir 7, Fanney Ragnarsdóttir 6, Kristrún Ríkey Ólafsdóttir 6/4 fráköst, Gígja Rut Gautadóttir 4, Jóhanna Ýr Ágústsdóttir 3, Matilda Sóldís Svan Hjördísardóttir 2.

Fyrri greinToppliðið ekki í vandræðum á Selfossi
Næsta greinÞórir þjálfari ársins á Íslandi og í Noregi