Hamar/Þór varð af mikilvægum stigum í 1. deild kvenna í körfubolta í kvöld þegar liðið heimsótti Aþenu í Austurberg í Breiðholti. Heimakonur í Aþenu sigruðu 72-56.
Aþena var skrefinu á undan nær allan fyrri hálfleikinn og staðan í leikhléi var 35-29. Munurinn jókst í 15 stig í 3. leikhluta en Hamar/Þór náði að minnka muninn í átta stig og staðan var 48-40 þegar síðasti fjórðungurinn hófst. Í honum hafði Aþena öll völd og Hamar/Þór átti fá svör á lokakaflanum.
Anyia Thomas var stigahæst hjá Hamri/Þór með 19 stig og 12 fráköst, Emma Hrönn Hákonardóttir skoraði 13 stig og tók 7 fráköst, Kristrún Ríkey Ólafsdóttir skoraði 10 stig og þær Hildur Gunnsteinsdóttir og Jóhanna Ágústsdóttir skoruðu 7 stig hvor.
Eftir leikinn er Hamar/Þór í 5. sæti deildarinnar með 10 stig en Aþena í 4. sæti með 14 stig.