Lið Hamars/Þórs er komið í 8-liða úrslit í bikarkeppni kvenna í körfubolta eftir öruggan sigur á KR í 16-liða úrslitunum í dag. Selfoss er úr leik eftir tap gegn Tindastól.
Leikur Hamars/Þórs og KR var jafn fram í fjórða leikhluta. Staðan að loknum 1. leikhluta var 18-16 en snemma í 2. leikhluta skoraði Hamar/Þór ellefu stig í röð og staðan í hálfleik var 40-32. KR sótti í sig veðrið í 3. leikhluta og minnkaði muninn í eitt stig en í fjórða leikhluta voru þær sunnlensku allsráðandi. Þær kláruðu leikinn af krafti og sigruðu 80-65.
Abby Beeman var með þrefalda tvennu fyrir Hamar/Þór, skoraði 21 stig, tók 14 fráköst og sendi 10 stoðsendingar, auk þess sem hún stal 4 boltum. Hana Ivanusa skoraði 17 stig og tók 14 fráköst og Anna Soffía Lárusdóttir og Jóhanna Ýr Ágústsdóttir voru sömuleiðis öflugar með 15 og 14 stig.
Þungur róður hjá Selfyssingum
Það varð snemma ljóst að róðurinn yrði þungur hjá Selfyssingum í dag. Tindastóll komst í 9-31 í 1. leikhluta og staðan í hálfleik var 31-53. Tindastóll jók forskotið jafnt og þétt í seinni hálfleiknum og lokatölur urðu 60-102.
Valdís Una Guðmannsdóttir var stigahæst Selfyssinga í dag með 18 stig og Donasja Scott skoraði 13 stig og tók 9 fráköst.
Dregið verður í 8-liða úrslitin næstkomandi fimmtudag en liðin í pottinum, auk Hamars/Þórs og Tindastóls, eru Grindavík, Njarðvík, Þór Ak, Stjarnan og Valur eða Haukar.