Hamar/Þór hársbreidd frá úrslitaleiknum

Abby Beeman. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar/Þór tapaði naumlega gegn Njarðvík í undanúrslitum bikarkeppni kvenna í körfubolta í Smáranum í Kópavogi í dag, 84-81.

Spekingar höfðu afskrifað Hamar/Þór fyrir leik en þeir fengu heldur betur að tyggja á sokkunum sínum yfir leiknum. Hann var jafn og spennandi allan tímann og Njarðvík náði að kreista fram sigurinn á lokasekúndunum.

Hamar/Þór leiddi nánast allan fyrri hálfleikinn en þær spiluðu frábæra vörn og voru yfir í leikhléi 40-41. Þær sunnlensku náðu sjö stiga forskoti í upphafi seinni hálfleiks en þá tóku Njarðvíkingar við sér og þær komust yfir, 59-58, undir lok 3. leikhluta.

Lokakafli leiksins var hrikalega spennandi. Njarðvík hafði sjö stiga forskot þegar stutt var eftir en Hamar/Þór hélt sér inni í leiknum með því að raða niður þremur ótrúlegum þristum á síðustu tuttugu sekúndum leiksins. Þær áttu síðustu sókn leiksins en flautukarfa utan af velli fór ekki í netið og Njarðvík fagnaði þriggja stiga sigri.

Abby Beeman var yfirburðamanneskja á vellinum, skoraði 27 stig fyrir Hamar/Þór, sendi 13 stoðsendingar og tók 8 fráköst. Hana Ivanusa skoraði 15 stig og Kristrún Ríkey Ólafsdóttir var öflug með 9 stig og 10 fráköst. Fatoumata Jallow skoraði 9 stig, Anna Soffía Lárusdóttir og Matilda Sóldís Svan Hjördísardóttir 8, Jóhanna Ýr Ágústsdóttir 3 og Gígja Rut Gautadóttir skoraði 2 stig og tók 5 fráköst.

Fyrri greinFarið fram á gæsluvarðhald yfir þeim sjöunda
Næsta greinNorsku læknarnir stunda íslenskunám