Hamar-Þór vann öruggan sigur á Stjörnunni í 1. deild kvenna í körfubolta í kvöld, en liðin mættust í Garðabænum.
Hamar-Þór leiddi allan leikinn, þær skoruðu fyrstu sex stigin í leiknum og juku forskotið enn frekar í upphafi 2. leikhluta. Staðan í hálfleik var 24-35.
Stjarnan minnkaði muninn í sex stig í upphafi seinni hálfleiks en þá tóku þær sunnlensku aftur við sér og byggðu upp gott forskot, sem jókst svo til muna í síðasta fjórðungnum og sigurinn var aldrei í hættu.
Astaja Tyghter var að vanda mikilvæg fyrir Hamar-Þór, hún skoraði 24 stig og tók 23 fráköst.
Hamar-Þór er nú í 6. sæti deildarinnar með 10 stig en Stjarnan er í 8. sæti með 8 stig.
Tölfræði Hamars-Þórs: Astaja Tyghter 24/23 fráköst, Hrafnhildur Magnúsdóttir 13/5 fráköst, Hildur Björk Gunnsteinsdóttir 11, Julia Demirer 8/14 fráköst, Lovísa Bylgja Sverrisdóttir 8/5 fráköst, Helga María Janusdóttir 5, Gígja Marín Þorsteinsdóttir 3/4 fráköst, Margrét Lilja Thorsteinson 2, Elín Þórdís Pálsdóttir 2, Ingibjörg Bára Pálsdóttir 2, Gígja Rut Gautadóttir 1.