Hamar-Þór heimsótti KR í 1. deild kvenna í körfubolta í kvöld. KR hafði betur, með talsverðum mun, 75-41.
Sóknarleikur Hamars-Þórs gekk stirðlega framan af leik og fáir leikmenn lögðu í púkkið en Jenna Mastellone skoraði megnið af stigum liðsins framan af leik.
KR-ingar voru fljótlega komnir með ágæta forystu, staðan í leikhléi var 35-19 og munurinn jókst svo mjög mikið í 3. leikhluta en þegar sá fjórði hófst var staðan orðin 60-27. Hamar-Þór hélt muninum í horfinu í 4. leikhluta en að lokum skildu 34 stig liðin að.
Mastellone var stigahæst hjá Hamri-Þór með 19 stig, Gígja Marín Þorsteinsdóttir skoraði 5 stig, Hildur Björk Gunnsteinsdóttir og Sigrún Elfa Ágústsdóttir 4, Anna Katrín Víðisdóttir og Emma Hrönn Hákonardóttir 3, en Emma Hrönn tók 6 fráköst að auki. Þóra Auðunsdóttir skoraði 2 stig og Jóhanna Ýr Ágústsdóttir 1.