Hamar-Þór með bakið upp við vegg

Hrafnhildur Magnúsdóttir skoraði 10 stig og tók 5 fráköst. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar-Þór tapaði stórt gegn Ármanni í þriðju viðureign liðanna í undanúrslitum 1. deildar kvenna í körfubolta í kvöld.

Hamar-Þór komst í 1-5 í upphafi leiks en þar með var öll sagan sögð því liðið skoraði aðeins þrjú stig það sem eftir lifði fyrri hálfleiks og staðan var 46-8 í hálfleik. Úrslitin voru ráðin á þessum tímapunkti, en leikur Hamars-Þórs snarlagaðist í seinni hálfleiknum. Það hafði þó lítið að segja og Ármann vann öruggan sigur, 78-47.

Margrét Lilja Thorsteinson var stigahæst hjá Hamri-Þór með 11 stig en Julia Demirer var framlagshæst með 6 stig og 12 fráköst. Eins og í síðasta leik lék Hamar-Þór án Astaja Tyghter sem fór heim til Bandaríkjanna í síðustu viku af persónulegum ástæðum.

Ármann leiðir því 2-1 í einvíginu og þarf einn stigur til viðbótar til þess að komast í úrslit.

Tölfræði Hamars-Þórs: Margrét Lilja Thorsteinson 11, Hrafnhildur Magnúsdóttir 10/5 fráköst, Lovísa Bylgja Sverrisdóttir 7, Hildur Björk Gunnsteinsdóttir 6/8 fráköst, Julia Demirer 6/12 fráköst, Gígja Rut Gautadóttir 5/7 fráköst/3 varin skot, Elín Þórdís Pálsdóttir 2.

Fyrri greinFannar Karvel ráðinn framkvæmdastjóri
Næsta greinÞórsarar misstu af mikilvægum stigum