KR er komið 2-0 yfir gegn Hamar/Þór í einvíginu um sæti í úrvalsdeild kvenna í körfubolta. Liðin mættust í leik tvö í vesturbænum í dag og þar sigraði KR 83-78.
Hamar/Þór var skrefinu á undan í 1. leikhluta en tíu stig í röð frá KR undir lok leikhlutans tryggðu þeim 23-22 forystu að honum loknum. Annar leikhluti var jafn en Hamar/Þór skoraði síðustu fjögur stigin í fyrri hálfleik og staðan var 39-38 í leikhléi.
Í upphafi seinni hálfleik höfðu þær sunnlensku forystuna en aftur náði KR að skora tíu stig í röð og þegar fjórði leikhluti hófst var staðan 61-55. KR hélt aftur af Hamri/Þór allan 4. leikhlutann og heimakonur sigruðu með fimm stiga mun þegar upp var staðið.
Abby Beeman var stiga- og framlagshæst hjá Hamri/Þór í dag með 26 stig, 10 stoðsendingar og 7 fráköst.
Þriðji leikur liðanna verður í Þorlákshöfn á mánudaginn og þar verður Hamar/Þór að sækja sigur til að halda lífi í einvíginu.
KR-Hamar/Þór 83-78 (23-22, 16-16, 22-17, 22-23)
Tölfræði Hamars/Þórs: Abby Beeman 26/7 fráköst/10 stoðsendingar, Anna Soffía Lárusdóttir 19/5 fráköst, Hana Ivanusa 17/5 fráköst, Kristrún Ríkey Ólafsdóttir 6/12 fráköst, Matilda Sóldís Svan Hjördísardóttir 6, Fatoumata Jallow 4.