Hamar/Þór tryggði sér í kvöld sæti í úrvalsdeild kvenna í körfubolta eftir sigur á Ármanni á útivelli, 72-82.
Spennan var gríðarleg í kvöld en Hamar þurfti einnig að treysta á sigur Aþenu gegn KR, sú varð raunin en úrslit beggja leikja réðust á lokamínútunni þannig að stuðningsmenn Hamars/Þórs voru flestir búnir að naga upp allar neglur sem í boði voru. Aþena sigraði KR 61-57.
Leikur Ármanns og Hamars/Þórs var mjög sveiflukenndur. Þær sunnlensku höfðu frumkvæðið framan af og leiddu í leikhléi, 44-53. Þriðji leikhlutinn var afleitur hjá Hamri/Þór og Ármann minnkaði muninn í 63-64 undir lok hans. Síðasti fjórðungurinn var æsispennandi en Hamar/Þór var sterkari í lokin og jók forskotið í tíu stig á síðustu sjötíu sekúndum leiksins.
Aniya Thomas var stigahæst hjá Hamri með 24 stig, tók 6 fráköst og sendi 7 stoðsendingar, Emma Hrönn Hákonardóttir skoraði 20 stig og tók 7 fráköst, Jóhanna Ágústsdóttir skoraði 18 stig, Hildur Gunnsteinsdóttir skoraði 13 stig og tók 6 fráköst, Tijana Raca skoraði 4 stig, Gígja Rut Gautadóttir 3 og Kristrún Ríkey Ólafsdóttir tók 17 fráköst, þar af 7 sóknarfráköst.
Þetta verður í fyrsta sinn sem Hamar/Þór leikur í úrvalsdeildinni en Sunnlendingar áttu síðast lið í efstu deild kvenna þegar Hamarskonur léku þar veturinn 2015-2016.