Hamar/Þór vann frábæran sigur á toppliði Aþenu í 1. deild kvenna í körfubolta í Þorlákshöfn í dag, 83-61.
Aþena fór betur af stað í leiknum, þær skoruðu fyrstu fimm stigin og leiddu allan 1. leikhlutann. Hamar/Þór komst yfir, 23-22, snemma í 2. leikhluta og þær kláruðu fyrri hálfleikinn af krafti, þannig að staðan var 43-36 í hálfleik.
Hamar/Þór spilaði frábæra vörn í 3. leikhluta og jók forskot sitt í fjórtán stig og frábær 11-2 kafli um miðjan 4. leikhluta gerði endanlega út um leikinn. Aþena átti engin svör á lokakaflanum og þær sunnlensku unnu sanngjarnan stórsigur.
Aniya Thomas fór á kostum í liði Hamars/Þórs með 37 stig og 10 fráköst. Emma Hrönn Hákonardóttir átti sömuleiðis frábæran leik, skoraði 21 stig, tók 10 fráköst og sendi 7 stoðsendingar. Jóhanna Ágústsdóttir skoraði 13 stig, Kristrún Ríkey Ólafsdóttir skoraði 5 stig og tók 10 fráköst, Tijana Raca skoraði 5 stig og tók 6 fráköst, Helga María Janusdóttir skoraði 2 stig og Gígja Rut Gautadóttir tók 3 fráköst.
Toppbaráttan í 1. deildinni er í algjörum hnút þegar þrjár umferðir eru eftir. Aþena, Hamar/Þór og KR eru öll með 26 stig og þar á eftir kemur Tindastóll með 24 stig og leik til góða, við Ármann sem kemur þar á eftir með 22 stig.