Hamar/Þór vann nýliðaslaginn

Abby Beeman var með rosalegar tölur fyrir Hamar/Þór í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar/Þór náði í mikilvæg stig í úrvalsdeild kvenna í körfubolta í kvöld þegar liðið mætti Aþenu í nýliðaslag í Austurbergi í Breiðholti.

Hamar/Þór náði sex stiga forskoti á upphafsmínútunum en þá tók Aþena við sér og þær höfðu frumkvæðið lengst af fyrri hálfleik. Staðan að loknum 1. leikhluta var 29-27 og heimakonur bættu við forskotið í 2. leikhluta og leiddu 50-47 í hálfleik.

Þriðji leikhluti var jafn og spennandi en hlutirnir fóru að falla Hamri/Þór í vil á lokakafla hans og í upphafi þess fjórða þar sem þær sunnlensku voru frábærar og juku forskotið jafnt og þétt. Hamar/Þór byrjaði 4. leikhluta á 9-2 áhlaupi og breytti þar stöðunni í 69-80. Eftirleikurinn var sannfærandi hjá Hamri/Þór sem sigraði örugglega að lokum, 85-97.

Abby Beeman var besti maður vallarins og átti sannkallaðan stórleik fyrir Hamar/Þór með 44 stig, 10 fráköst og 3 stoðsendingar. Teresa Da Silva skoraði 14 stig og setti niður stórar körfur á mikilvægum augnablikum í seinni hálfleiknum.

Hamar/Þór er með 4 stig, eins og Keflavík og Tindastóll en Haukar eru á toppi deildarinnar með 6 stig.

Fyrri greinGlæsilegur útisigur Selfosskvenna
Næsta greinMiðflokkurinn auglýsir eftir framboðum