Hamarskonur sigruðu KR í fjórða leik liðanna í úrslitum Íslandsmóts kvenna í körfubolta í Hveragerði í dag. Lokatölur voru 81-75.
KR byrjaði betur í leiknum og leiddi að loknum fyrsta leikhluta, 17-25. Hamar náði að komast yfir í 2. leikhluta og leiddu í hálfleik, 45-42.
Síðari hálfleikur var jafn og spennandi en Hamarskonum tókst að verja forskot sitt með Juliu Demirer fremsta í vörn og sókn.
Demirer var með risatvennu í leiknum, skoraði 23 stig og tók 26 fráköst. Koren Schram skoraði 20 stig, Kristrún Sigurjónsdóttir 11 og Guðbjörg Sverrisdóttir 10.
Liðin horfa því fram á hreinan úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn og verður hann í DHL höllinni í Vesturbænum á þriðjudagskvöld kl. 19:15.