Fyrsta deild karla í körfubolta er komin í jólafrí eftir leiki kvöldsins en í kvöld vann Hamar botnlið Ármanns á meðan FSu tapaði fyrir Valsmönnum.
Bæði sunnlensku liðin léku á útivelli í kvöld, en ekki hafa borist upplýsingar frá leik Ármanns og Hamars, að öðru leiti en því að lokatölurnar urðu 50-85, Hamri í vil.
FSu átti undir högg að sækja gegn Val að Hlíðarenda. Staðan var jöfn eftir 1. leikhluta, 22-22, en í 2. leikhluta tóku Valsmenn af skarið og leiddu í hálfleik, 58-34. Munurinn jókst til muna í 3. leikhluta en staðan að honum loknum var 86-47 og úrslitin ráðin. Lokatölur urðu 107-64.
Terrence Motley var stigahæstur hjá FSu með 29 stig og Ari Gylfason skoraði 20 en aðrir mun minna.
Með sigrinum fór Hamar upp í 5. sætið, upp fyrir FSu sem er í 7. sæti en bæði lið hafa 10 stig, eins og Vestri sem er í 6. sætinu.
Næstu leikir í deildinni verða þann 5. janúar á næsta ári en þá fær FSu Breiðablik í heimsókn.