Hamarskonur töpuðu í kvöld í oddaleik gegn Njarðvík í undanúrslitum Iceland Express-deildar kvenna í körfubolta, 67-74. Hamarskonur eru því komnar í sumarfrí en Njarðvík mætir Keflavík í úrslitum.
Leikurinn var hnífjafn í fyrri hálfleik og hin ágætasta skemmtun. Að minnsta kosti voru áhorfendur á troðfullum pöllunum vel með á nótunum og studdu liðin dyggilega. Staðan var 40-41 í hálfleik.
Sóknarleikur Hamarsliðsins var stirður í seinni hálfleik og skotin ekki að detta hjá liðinu. Jaleesa Butler bar uppi sóknarleik liðsins en framlag annarra leikmanna var minna. Hamarsliðið var t.d. með einstaklega lélega nýtingu utan teigs en aðeins tvö af nítján þriggja stiga skotum fóru ofaní.
Hamar komst yfir í upphafi 4. leikhluta, 56-55, en Njarðvík skoraði þá níu stig í röð og fóru langt með að tryggja sér sigurinn. Staðan var 56-64 þegar tæpar fjórar mínútur voru eftir af leiknum.
Fögnuður Njarðvíkurliðsins var mikill í leikslok enda í fyrsta sinn sem liðið kemst í úrslitaviðureign deildarinnar. Hamarskonur sátu hins vegar sárar eftir og verða eflaust lengi að kyngja þessu tapi.
Jaleesa Butler skoraði 34 stig og tók 11 fráköst auk þess að verja 4 skot. Slavica Dimovska skoraði 10 stig og sendi 11 stoðsendingar, Íris Ásgeirsdóttir skoraði 9 stig, Fanney Lind Guðmundsdóttir 8, Þórunn Bjarnadóttir 4 og Kristrún Sigurjónsdóttir 2.